10.4.2015 | 18:48
Hægt að breyta lífeyriskerfinu öllum til hagsbóta
Breytingar á lífeyriskerfinu öllum til hagsbóta
Þegar lífeyriskerfið var stofnað var ákveðið að fresta skatthluta inngreiðslna og taka skattinn af þegar greitt yrði út úr sjóðunum. Það var sennilega ákveðið að hafa þetta svona til þess að flýta fyrir sjóðsöfnun sjóðanna. Þannig var ákveðið að lífeyrissjóðirnir mundu sjá um að ávaxta framtíðaskatttekjur ríkissins. Í dag eru eignir sjóðanna orðnar um 3000 milljarðar og eru nánast að vaxa íslensku hagkerfi yfir höfuð. Ekki eru nægjanlegir fjárfestingakostir í íslensku hagkerfi fyrir alla þessa peninga.
Hægt er að spyrja sig hvort ekki mundi nýtast þjóðfélaginu betur að ríkið tæki sinn skatthluta út úr sjóðakerfinu til þess að greiða niður skuldir og spara vexti. Skuld hins opinbera við lífeyriskerfið er nánast jafn há og skattaeign í sjóðunum. Þannig væri hægt að slá striki yfir opinberar skuldir og minnka þannig eignir sjóðanna sem nemur skatthlutfallinu.
Í kjölfarið væri skynsamlegt að breyta skattkerfinu þannig að skattur yrði staðgreiddur við innlögn í sjóðina í staðin fyrir útgreiðslu. Hlutverk lífeyrissjóðanna yrði þá að ávaxta lífeyri félagsmanna en ekki framtíðarskatt ríkissins. Fjárfestingaþörf sjóðanna mundi minnka verulega og meira jafnvægi kæmist á efnahagslífið.
Ríkið verður ekki af framtíðaskatttekjum þar sem starfandi kynslóð greiðir sífellt skattinn strax inn í ríkiskassann.Við að breyta kerfinu munu skatttekjur hins opinbera hækka verulega og munu nýtast öllum lifandi þegnum landsins. Á meðan það fæðast nýjar kynslóðir til þess að greiða skatta hefur þessi breyting ekki áhrif. Það yrði í raun síðasta kynslóð íslendinga sem ætlar að búa á landinu sem tæki höggið, en að sama skapi er hægt að segja að starfandi fólk í landinu þarf alltaf að sjá um að allt gangi fyrir þá sem ekki eru starfandi. Því er ekki hægt að eiga peninga í sjóði sem mundu nýtast ef það væru engir til að vinna verkin.
Fyrir neðan eru tvær myndir sem teknar eru úr skýrslu Hagtölur lífeyrissjóða Mars 2014 gert af Landssamtökum lífeyrissjóða.
Á myndunum sjást heildarútgreiðslur úr lífeyrissjóðunum og fjöldi lífeyrisþega. Ekki eru til gögn fyrir 2014 en ef við bætum aðeins við 2013 og reiknum með að útgreiðslur 2014 séu 95 milljarðar og fjöldi lífeyrisþega 32 þúsund þá er hægt að bera saman áhrifin vegna breytinga kerfisins.
Samkvæmt hagstofunni voru 136 þúsund starfandi í fullti vinnu 2014 og meðal heildarlaun voru 555 þúsund á mánuði.
Í hlutastarfi voru 41 þúsund með regluleg heildarlaun að meðaltali 338 þúsund á mánuði.
Í útreikningunum er miðað við að tekið sé 10% af heildarlaunum og greitt inn í lífeyrissjóði og notast er við skatthlutfall 37%
Þannig greiða þeir sem eru í fullri vinnu 55500 inn í sjóðina og þeir í hlutastarfi 33800.
Skatthlutfallið af 55500 er 20535 og hlutfallið af 33800 er 12506
Nú er hægt að sjá hver upphæðin er sem ríkið er að setja inn í lífeyrissjóðina til ávöxtunar.
136000 í fullu starfi * 20535 * 12 mánuðir gera 33,5 milljarðar
41000 í hlutastarfi * 12506 * 12 mánuðir gera 6,1 milljarður.
Samtals fer skattur til lífeyrissjóðanna til ávöxtunar að upphæð 39,6 milljarðar árið 2014 miðað við þessar forsendur.
Þá getum við athugað hvað ríkið fær háar greiðslur frá lífeyrissjóðunum.
Heildar útgreiðsla úr sjóðunum var 95 milljarðar og fjöldi lífeyrisþega 32 þúsund.
Meðal útgreiðslur út úr lífeyrissjóðunum eru því 247 þúsund á mánuði fyrir hvern einstakling. Skattur af þeirri upphæð er 41230 reiknað með reiknivél RSK
Skatttekjur hins opinbera frá lífeyrisþegum er því 41230 * 32 þúsund lífeyrisþegar * 12 mánuðir eða 15,8 milljarðar.
Ef ríkið tæki skattin beint af við inngreiðslu mundu skatttekjur ríkissins aukast um 23,8 milljarða á ári miðað við forsendurnar að ofan. Þessir 28 milljarðar mundu strax nýtast öllum landsmönnum bæði vinnandi og lífeyrisþegum í bættum innviðum td. heilbrigðiskerfi og skólakerfi.
Það væri áhugavert að fá umræðu um núverandi fyrirkomulag lífeyriskerfissins. Það lítur út fyrir að hægt væri að bæta lífsgæðin á landinu mikið með því að breyta kerfinu. Það græða allir enginn tapar. Ef þessir útreikningar eru réttir þarf að svara spurningunni hverjir eru að hagnast á núverandi lífeyriskerfi og er það að nýtast öllum landsmönnum eins vel og hægt er?
Athugasemdir
"Þegar lífeyriskerfið var stofnað var ákveðið að fresta skatthluta inngreiðslna og taka skattinn af þegar greitt yrði út úr sjóðunum." -- Nei, upphaflega var skatturinn tekin með tekjuskatti hvers árs, lífeyrisgreiðslur voru ekki undanþegnar skatti. Það tók áratuga baráttu að fá þessu óréttlæti breytt. En óréttlætið fólst í því að ævitekjurnar voru e.t.v. ekki það háar að fólk hefði borgað skatt af útgreiðslunni þó sami aðili hafi haft góðar tekjur sum árin og borgað háa skatta. Hann var því að borga skatt af inngreiðslu þó útgreiðslan hefði hvort sem er verið undir skattleysismörkum. Það er náttúrulega ekki vinnandi vegur að ætla að endurgreiða oftekna skatta 50 ár aftur í tímann. Þetta kerfi stefndi í að verða sérstaklega slæmt fyrir fólk sem missti starfsorku um miðjan aldur og mundi því eiga lífeyrissjóð sem væri þessum oftekna skatti lægri.
Lífeyriskerfið er eins og launakerfið, einstaklingar eru þar skattlagðir en ekki heildin og skatturinn er tekinn þegar einstaklingurinn fær greitt en ekki þegar vinnan er framkvæmd. Það er réttlátast.
Vagn (IP-tala skráð) 10.4.2015 kl. 20:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.